hestasögur

horse faceHornfirski hesturinn
Páll Imsland -Tekið saman janúar 2004

Af 22 austur-skaftfellskum hestum og vel það og nokkrum hestamönnum að auki, fært í stílinn að nauðsynlegu lágmarki.
(Hrossum raðað í aldursröð)


Gallagripur í Gamla-Garði
Hann mun hafa verið fæddur í kringum 1860 gráskjóttur á lit og loðnari miklu en gengur og gerist um folöld. Móðir hans var grá hryssa í eigu Björns Jónssonar í Gamla-Garði. Björn þessi var langafi Péturs föðurs Helgu, Eysteins og Bessíar og Ágústu konu Eyjólfs söngstjóra eða Adda-Putt, eins og hann er gjarnan þekktur af yngra fólki. Gekk merin jafnan á beit á bökkum Fífutjarnar. Folaldið var tekið undan merinni og haft á húsi eins og siður var og reyndist strax óviðráðnlegt og illvígt, fitjaði uppá, gerði sig líklegt til að bíta og slá og öskraði sem naut en hneggjaði ekki. Eitt sinn er setja átti trippið inn að kvöldi snerist það til varnar í miklum ham svo mannskapur kom því ekki á hús og lauk þeirri viðureign þannig að trippið datt niður steindautt og hefur ekki risið síðan. Það er alkunna að í Fífutjörn býr nykur og hefur sú skýring alla tíð verið talin góð og gild að undan honum hafi Gallagripur verið, enda ekki til þess vitað að merin hafi nokkru sinni haft við venjulegum fola umrætt sumar.


Óða-Rauðka 2 frá Árnanesi

Rauðka var fædd ca. 1895 og eigandi hennar var Jón Benediktsson í Árnanesi langafi Tobbalinganna, afi Árna Vignis og Dýhólsbræðra og einhverra annarra sem ekki eru jafn frægir, jafnvel þó svo að Dúi og Palli í Árnanesi væru ekki kvennamenn, sagðir ógiftir og barnalausir. Rauðka var af Eskeyjarkyni og er jafnan talin formóðir Árnaneskynsins þó rekja megi það örlítið lengra en til hennar og þar með er hún einnig að verulegu leyti ættmóðir Hornafjarðarstofnsins. Í ræktun hennar sjálfrar kemur strax fram hin nána samrætum nákominna ættingja, sem alla tíð síðan hefur einkennt Árnanesræktunina. Hún var undan Yrpu og Olgeirs-Rauð, sem einnig var bróðir hennar. Óða-Rauðka er óefað ein allra kynsælasta ættmóðir íslenskra hesta á 20. öldinni. Hún fékk viðurnefni sitt af óstýrilæti sínu og óviðráðanlegu ofsafjöri. Hún varð meri númer 2 á ættbók íslenskra hesta, þegar byrjað var að halda hana, en nú man enginn lengur hvaða meri var númer 1, eða hvort eitthvað er út af henni komið. Á Stekkhóli hefur minningu Óða-Rauðku verið reistur varði en óbrotgjarnasti varði hennar er fólginn í afkomendum hennar sjálfrar, sem nú finnast um allt Ísland og fjölmörg önnur lönd.


Mokkur frá Svínafelli
Mokkur hét hann, fæddur rétt fyrir 1900. Í nafninu mun felast sama merking og í nútímaútgáfu þess, mökkur. Einhvern tíma hefur sjálfsagt þótt rjúka undan honum. Hann varð mikill ættfaðir í Öræfum og gaf Öræfingum landsþekkta gæðinga sem gengu á hærra verði í sölu en aðrir dýrir hestar. Kyn hans hélst lengi sem gæðingakyn í Öræfum, eða allt til þess að ráðunautar plötuðu inn á Öræfinga gráum klár vestan úr sýslu sem var undan Þokka frá Brún. Með honum hurfu hinir frábæru reiðhestakostir og ferðahestakostir sem bjuggu í Mokkskyni og voru Öræfingum bráð nauðsyn á löngum verslunarferðum og öðrum ferðalögum þar sem allt þurfti að hafa í senn, langar dagleiðir og miklar heildarlengdir, mikinn flutning, vatnasvaml og sandbleytur. Þó eru enn til hross sem rekja má til Mokks og eru þar á meðal litföróttu hrossin frá Svínafelli sem nú spila stóra rullu í því að endurlífga þennan sjaldgæfasta og sérstæðasta lit í íslenska hrossastofninum. Þá hrossaætt má rekja allt til Litlu-Gránu á Sandfelli sem fædd var um 1875. Undan henni var Mús í Svínafelli fædd um 1890 sem við Mokki fékk fyl og var þar komin Grástjarna formóðir litförótta kynsins.


Laufi frá Uppsölum
Laufi var fæddur Gísla Bjarnasyni á Uppsölum, afa Ingimars á Jaðri, líklega nærri 1915 og var af hinu frábæra Eskeyjarkyni, náskyldur Óðu-Rauðku. Kjartan á Fiskhóli eignaðist Laufa 1922 og átti í nokkur ár en seldi hann þá austur á Norðfjörð. Laufa var þá skipað um borð í lítinn fiskibát sem Drífa hét og var á leiðinni austur. Sigldu menn svo af stað með Laufa í stíu á dekki. Þegar út fyrir Þinganesskerin kom sá Laufi sig um hönd og hætti við að fara austur, stökk fyrir borð og synti í land. Fyrst synti hann um 300 m sprett og komst upp á Þinganesskerin þanghál og skreip en setti sig þá í sjóinn aftur og synti upp á Austurfjörur, um 250 m. Þaðan tók hann strikið yfir fjörurnar og í sjóinn innanfjarðar og synti upp í Helli, um 350 m, þaðan yfir Miðós og upp í Ósland, um 300 m og síðan beint yfir Óslandið og í sjóinn enn einu sinni og synti upp í Hafnarnesið, enn um 300 m. Allt sundið hans er því yfir einn og hálfan km í ísköldum og straumhörðum sjó og eru varla mörg önnur dæmi svona afreka. Það var ekki til einskis sem Gísli á Uppsölum kenndi Laufa sundið folaldi. En það gerði hann með því að róa út um Hestgerðislón með Rauðku móður hans í taumi svo Laufi sjálfur elti.


Dalatangavitinn frá Slétta-Leiti

Hann mun formlega hafa heitið Rauður og verið fæddur um 1920. Um ætt hans veit enginn, en ætt er frá honum komin þó ekki hafa verið til hennar stofnað af ásetningi í upphafi. Viðurnefni Rauðs á sér upphaf í stríðni Sunnsendinga. Þeim fannst klárinn hafa svo sérkennileg hljóð að þeir kölluðu þau líkari baulinu í þokulúðrinum í vitanum á Dalatanga, sem er dulmagnað og draugalegt í svartaþokunni sem oft er þar á siglingaleiðum úti fyrir. Eigandi Dalatangavitans var Þorsteinn á Sléttaleiti, afi þeirra Bentabarna og Vegamótasystkina. Ættir frá Rauð eru þannig tilkomnar að eitt sinn var Þórður á Kálfafelli að færa tað í meisum út á völl á merum sínum. Veit hann þá ekki fyrr til en kominn er Dalatangavitinn ungur og graður og hefur eina meri hans áður við verður brugðið með taðmeisum og öllu. Þó klárinn fengi óblíðar þakkir og ófagrar kveðjur kom það ekki að sök, næsta vor fæddist Önnu-Brúnka á Káfafelli og út af henni eru ættir Jaðarshrossanna komnar eftir ýmsum leiðum. Undan henni og Blakk 129 í Árnanesi var Hrefna 1775 á Kálfafelli og undan henni voru Högni, Blakkur og Hrefna 3422 á Jaðri og undan Hrefnu á Jaðri voru m.a. Blesi, Hlynur, Stjörnu-Blesi og Honda á Jaðri og undan Stjörnu-Blesa voru Grani og Blesi 1000 og undan honum eru Glæta á Jaðri og Skessa frá Svínafelli, móðir Dyns litförótta folans hans Magnúsar Böltanum í Svínafelli sem notaður var í tilraunaræktun um litföróttu litarafbrigðin og er m.a. faðir Páls frá Lágafelli, sem nýlega var seldur fyrir ofurfé, svo eitthvað sé talið.


Flugvélin í Flatey
Hún var jarpstjörnótt og hét formlega Nös og var af Eskeyjarkyni fædd um 1920. Svo var hún frá á fæti að ekki þótti henni hæfa annað nafn betur en Flugvélin þegar líða tók á ævi hennar og hún fór að sigra kappreiðahestana. Þessi hlaup gengu aftur í afkomendum hennar, eins og ljóst verður. Móðir Flugvélarinnar var Gláma í Flatey sem átti Heinabergs-Brún að afa, en dóttir hennar var Bleik hin eldri í Flatey, sem var móðir yngri Bleikar en hún átti Nökkva frá Hólmi að föður. Yngri-Bleik var almennt kölluð Sigga-Bleik eftir eiganda sínum Sigga Ketils og hlaut þann dóm ráðunautar árið 1959 að hún væri ein af betri hryssum í landinu. Enda átti hún eftir að sanna sig í afkomendum sínum. Dóttir hennar var skörungurinn Mön 3926 sem Bergur í Flatey átti og var móðir landsfrægra stóðhesta, Skós 823 og Fífils 947 og fjör- og hlaupahestannna Mósa og Þjálfa sem Sveinn í Völundi eignaðist. Ekki liggur ljóst fyrir, en vel gæti það verið að þeir félagarnir Siggi og Bergur hafi einmitt verið á mæðgunum Bleik og Mön í útreiðinni sem saga sú er nú greinir gerðist. Mýramenn voru í hefðbundinni sunnudagsútreið og Flateyingar komnir austur yfir Hólmsá og hópurinn áði í Heinabergi. Þar sátu menn á garðbroti og staupuðu sig en Bergur gekk um garðinn að baki manna og spjallaði. Allt í einu þagnar mál Bergs og er menn líta eftir liggur hann steinrotaður innangarðs. Menn taka þá að stumra yfir honum og fikra honum til lífs á ný. Siggi félagi hans þreifar fyrir sér um brjóst Bregi og finnur þá að hjartað slær og í brjóstvasanum er pelinn heill. Hann dæsir þá við og segir: „Æ, hann Bergur var nú aldrei mikill ræðumaður.“


Framsóknar-Gráni frá Einholti

Gráni, sem réttu nafni hét Stormur, var fæddur árið 1922 og varð 24 vetra gamall. Hann var þrekhestur og mikill viljahestur, moldóttur að lit, með svart fax og tagl og gulan lit á skrokknum. Gráni var mikið notaður til langferða og dugði afburðavel ekki síst í vötnum og munu þær ófár ferðirnar hans yfir Hornafjarðarfljótin og önnur krapaköld stórvötn. Kristján í Einholti, faðir Unnar á Lambleiksstöðum, Hannesar í Holtahólum og fleiri Mýramanna og þar með afi fjölda fólks, átti Grána og orti um hann fallinn.


Nú er Stormur fallinn frá
frægstur hesta var hann.
Um fjöll og dali og djúpa á
djarflega mig bar hann.

Þegar framsóknarmenn voru á ferðinni var Stormur gjarnan settur undir þá, einkum í vötnum, enda dýrmætt fólk á ferð og því þurfti að vanda undir það setuna, trausta og áreiðanlega. Af þessu hlaut hann viðurnefni sitt og bar með sóma. Ekki er til þess vitað að framsóknarmönnum hafi orðið annað en gott af setunni á Grána, mjúkum og liprum og má kannski jafna honum við ráðherrastól.


Regínu-Irpa frá Kálfafelli
Fylla hét hún réttu nafni og hafði ættbókarnúmer 421. Hún var fædd 1925 jörp eins og kemur fram í nafni hennar. Viðurnefni sitt hafði hún af eiganda sínum Regínu á Kálfafelli og síðar á Grímsstöðum, móður Baldurs Gísla og ömmu Gísla Marteins, sem hér stjórna fjöri. Irpa var undan Steinunnar-Brúnku 112 frá Hólmi, kenndri við móður þeirra Ragnars og Gísla Jónssona sem m.a. áttu heima í Skólabrú. Steinunnar-Brúnka var aftur undan Heinabergs-Brún, sem var mikill ættfaðir á Mýrum í upphafi 20. aldar. Irpa var systir Gísla-Rauðku 848 sem er ein sterkasta ættmóðir Fornustekkahrossanna. Af Irpu sjálfri fara ekki miklar sögur en hins vegar hafa afkomendur hennar orðið frægir (og er þá ekki átt við Gísla Martein). Undan Irpu og Sæmundar-Bleik, kenndum við Sæmund í Bóli, forföður fjölmargra Hornfirðinga, var bleik hryssa, Perla að nafni sem fór að Rauðabergi og þar komu undan henni bleikir hlaupaklárar hinir mestu. Fyrst kom Geisli 1954, sem Sævar Kristinn átti og setti met og vann riðla á kappreiðum á Stapasandi á bökkum Hornafjarðarfljóta. Síðan kom Þytur 1956, sem Gunnar Guðmunds. átti. Þeir voru albræður og báðir undan Hóla-Jarpi. Þytur varð einn mesti hlaupagikkur landsins. Á móti á Egilsstöðum árið 1963 vakti hann slíka athygli að hann endaði fyrir sunnan. Sveinn í Völundi sem á þessum tíma safnaði úrvalshrossum keypti hann og í hans eigu varð Þytur alþekktur sigurvegari, meistari og methafi í spretthlaupum.


Skúmur í Stórulág
Skúmarnir í Stóru-Lág eru reyndar tveir. Sá eldri er frá dögum sænsk-íslensku Vatnajökulsleiðangranna, þ.e.a.s. fyrir seinni heimstyrjöld, fæddur 1925 í Árnanesi í eigu Valda og taminn af honum. Sigfinnur fékk hann og beislið uppi í honum í hrossakaupum við Valda og lét gráa meri í staðinn fyrir Skúm og foldið hennar fyrir beislið. Skúmur var afburðahestur, skolbrúnn á lit, fjörmikill, hraðskreiður og áræðinn, þurfti t.d. ekki að opna fyrir hann hlið eða brúa ár. Sigfinnur hleypti honum jafnan yfir allt slíkt án fyrirstöðu, en lét Skúm velja vötnin. Sagt er að Sigfinnur hafi mætt á honum á böll og þá ekki haft fyrir því að fara af baki er á ballið kom, heldur riðið beint inn á dansgólf og dansað á hestinum eins og aðrir gerðu á skónum. Skúmur varð síðan fyrirmynd sænsks myndhöggvara, Ivars Johnssons, að styttu af Svíakonungi á söguöld á hefðbundinni hyllingarreið um Eiríksgötu. Að sjálfsögðu var Sigfinnur jafnframt fyrirmyndin að kóngi á baki en samt ber kóngur ekki sterkan svip af Sigfinni. Yngri Skúmur var ekki síður sagnahestur, fæddur 1962, undan Sleipni í Miðfelli og Jörp frá Hofi í Álftafirði, sem var undan hlaupagarpinum Garpi frá Árnanesi. Á yngri Skúmi reið Sigfinnur til æðstu verðlauna á landsmóti á Þingvöllum árið 1978 í samkeppni við atvinnuknapa og hefur enginn bóndi leikið slíkt eftir síðan, að rækta, temja, þjálfa og ríða sjálfur sínum hesti á æðsta verðlaunapall.


Blakkur 129 í Árnanesi
Blakkur var eins og í nafninu felst brúnn á lit og fæddur 1926. Hann var undan Streitis-Blakki, kenndum við Streiti í Breiðdal þangað sem hann fór frá Árnanesi, en hann var undan Þór 56 frá Árnanesi, en sá var undan yngri Brún í Árnanesi sem var undan eldri Brún í Árnanesi en sá var undan Óðu-Rauðku. Streitis-Blakkur var undan Hæru 342 í Árnanesi en hún var undan eldri Brún eins og Þór. Í móðurætt var Blakkur undan Valda-Stjörnu 36, sem einnig var móðir Þórs. Stjarna átti Villa-Rauðku að móður en hún var undan Óðu-Rauðku. Faðir Stjörnu var hins vegar Hóla-Sóti í Árnanesi, sem átti Óðu-Rauðku að ömmu eins og Hæra. Þannig var skyldleikaræktun stunduð ákaft og náið í Árnanesi svo segja má að þar hafi ekkert verið ógert í skyldleikaræktun nema að fá mæðurnar undan dætrum sínum. Blakkur varð mikill ættfaðir. Hann er t.d. faðir Víkings frá Árnanesi og þar með afi Skugga frá Bjarnanesi og langafi Nökkva frá Hólmi og langa-langafi Hóla-Jarps. Blakkur fór vestur í Hreppa til kynbóta árið 1933 og þar kom margt út af honum, allt gott og flest mjög gott og var margt af afkvæmum hans sunnanlands notað til áframhaldandi kynbóta. Þannig sagði Óskar í Ásatúni í Hrunamannahreppi að Hreppamenn hefðu aldrei verið jafn vel ríðandi á fjalli og þegar trippin undan Blakki skiluðu sér inn í tamda hrossahópinn og kalla mætti að nánast hvert folald undan honum í Hrunamannahreppi yrði gæðingur. Árið 1938 kom Blakkur heim aftur en entist þar stutt og féll að lokum fyrir blýi eftir að hafa fótbrotnað „uppi í landi“.


Grani frá Árnanesi
Grani var rauður tvístjörnóttur klár í Árnanesi fæddur um 1927. Faðir hans hét Nasi en móðirin Villa-Jörp. Hún var að öllum líkindum dótturdóttir Óðu-Rauðku. Þorbergur í Hólum sá í Grana hlaupahest og eignaðist hann. Grani mætti því til kappreiða og gerði það gott. Hins vegar vildi svo til að Þorbergur varð þingmaður Austur-Skaftfellinga upp úr þessu og lagðist því nokkuð í ferðir og dvalir fyrir sunnan. Fór hann með Grana suður og þar æxluðust mál svo að Grani fór að hlaupa á Fákskappreiðum og stóð sig vel, mun þar m.a. hafa unnið mót, en ekki fengið að njóta nafns síns og kallast eitthvað annað. Saga hans sem kappreiðahests á hornfirskri grund var því ekki löng, en þar fetaði hann í fótspor föður síns, Nasa frá Árnanesi sem var frægur hlaupahestur í Hornafirði. Nasi var sótrauður og blesóttur, undan Gusu í Árnanesi sem ekki var af kyni Óðu-Rauðku heldur Kúfu frá Smyrlabjörgum, sem var af Eskeyjarkyni. Faðir Nasa var hestur af Árnanesættum sem kallaður var Dilksnes-Blesi. Nasi var einn fótfráastur hesta á sinni tíð í Hornafirði, vann mót en hlaut ógjarnan viðurkenningar fyrir vegna óstýrilætis og kannski óstjórnar knapanna með. Hann kom gjarnan langfyrstur að marki en hitti ógjarnan á það, þar sem hann hljóp oftast út um víðan völl framhjá öllum mörkum. Palli var á baki og sá ekki ástæður til þess að endurtaka hlaup bara til þess að hitta á eitthvert hlið, þegar það lá alveg ljóst fyrir hver hljóp hraðast.


Bráinn 144 frá Dilksnesi
Bráinn þýðir ormur. Hann var fæddur Bensa í Dilksnesi árið 1928. Báðir voru þeir frægir, en sitt á hvorn mátann. Bensi varð frægur í bókmenntunum fyrir vínhneigð sína, sem Nóbelsskáldið hefur gert grein fyrir og fólst í því að árlega keypti hann sér brennivínsflösku, sem entist honum árið. Bráinn varð frægur fyrir útlit sitt, stríðið við Blakk og afkomendur sína, en þá átti Bensi enga. Bráinn var rauður að lit og undan Gammi í Hoffelli sem var óskyldur Árnaneshrossunum, en kominn út af Geysi frá Þinganesi, sem var langa-langafi hans. Geysir þessi var mikill gæðingur fæddur 1888, leirljós á lit en sá litur hefur varla verið til á hornfirskum hrossum síðan í upphafi 20. aldar. Geysir var seldur Stefáni Stefánssyni grasafræðingi og skólameistara Möðruvallaskóla og síðan Gagnfræðaskólans á Akureyri og varð hans uppáhalds reiðhestur og ferðahestur. Frá honum er sagt í hinni frægu bók Ásgeirs Jónssonar Horfnir góðhestar, og mun hann vera einn hornfirskra hesta í þeirri miklu skrá. Móðir Bráins var hins vegar Bensa-Rauðka 134 sem var skyldleikaræktuð út af Óðu-Rauðku, ömmu sinni í báðar ættir. Það var alla tíð eins konar samkeppni á milli Blakks 129 og Bráins 144 og skiptust menn í fylkingar með öðrum og á móti hinum. Eftir á verður að telja að Bráinn hafi tapað þeirri keppni, að minnsta kosti á landsvísu, þó ekki skorti fegurðina. En eins allir hafa fyrir satt, þá verður ekki riðið langt á fegurðinni. Þó eru spor Bráins í hrossarækt Hornfirðinga engan veginn ómerk. Bráinn var sendur suður í Hreppa þegar Blakkur kom til baka en skildi þar ekki eftir sig umtalsverð spor. Bráinn þótti mun fallegri hestur en Blakkur en afkomendur hans þótti skorta kjark.


Skuggi 201 frá Bjarnanesi
Skuggi var dökkjarpur hestur með stjörnu fæddur í Bjarnanesi 1937 í eigu séra Eiríks Helgasonar. Móðir Skugga var Litla-Jörp af hinu fræga Mokkskyni í Öræfum. Séra Eiríkur á Sandfelli átti og kom með Litlu-Jörp austur í Nes þegar hann tók við prestsskap í Bjarnanesi. Faðir Skugga var hins vegar Víkingur í Árnanesi sem Steingrímur kaupmaður átti. Eins og vænta mátti var Skuggi, blanda af þessum tveim úrvals skaftfellsku kynjum, efnisfoli enda var hann þrevetur seldur suður í Hreppa þar sem Steinþór á Hæli tamdi hann og gerði úr honum úrvals- og skörungsreiðhest. Undan Skugga eignuðust Hreppamenn fjöldann allan af úrvalsgæðingum. Árið 1945 fór Skuggi upp í Borgarfjörð til að bæta þar hrossastofninn og eftir hann allan reistu Borgfirðingar honum veglegan minnisvarða sem enn stendur og stofnuðu stofnræktunarfélag um afkvæmi Skugga og framhaldsræktun á Skuggakyni. Skuggi fékk Sleipnisbikarinn, æðsta verðlaunagrip sem hrossum er veittur, á landbúnaðarsýningunni í Reykjavík árið 1947. Hann var þó líkt og aðrir hornfirskir graðhestar bæði dáður og fyrirlitinn, enda hefur öfund og ósanngirni lengi einkennt hrossapólitík og fylgt hestamennsku eins og sjálfvakinn Móri.


Hitler í Hömrum
Hitler var rauðjarpur hestur fæddur á Meðalfelli árið 1939 og kemur þar fram skýring á nafni hans. Hann var undan hinum mikla skörungi Blakki 129 frá Árnanesi, sem verið hefur mestur ættfaðir hrossa í Árnanesi og reyndar víðar. Móðir Hitlers var Snorta á Meðalfelli sem var dóttir Bráins 144 í Dilksnesi sem keppti við Blakk um virðingarröðina í hópi ættfeðra hornfirskra hrossa á fyrri hluta 20. aldar. Blandan, sem er skyldleikaræktun út af Óðu-Rauðku, var því líkleg til þess að skila góðu, enda reyndist Hitler mikill skörungur og einstaklega sjálfstæður hestur. Þórður í Hömrum keypti hann ungan og átti síðan og tamdi. Það urðu frægar brösurnar þeirra Hitlers og Þórðar út um allar Mýrar á sinni tíð, enda hvorugur fyrir að láta sinn hlut, kappsamir og viljugir, duglegir og ákafir til afreka. Hitler var mjög hlaupaglaður og kunni varla klyfjagang. Hann nýttist því lítt til snúninga við fé en naut sín þeim mun betur í þeysireið enda mun það varla hafa komið fyrir að aðrir hestar tækju hann á spretti. Fræg er sagan af því þegar Hitler strauk frá Þórði á Fljótsbökkunum og setti sig út í Fornustekkarotin svo Þórður mátti hátta sig og svamla, ósyntur sjálfur eftir honum út í hólma í rotunum. Þá settu Mýrastrákar sig ekki úr færi og önnuðust vel um föt Þórðar, svo hann var harla fáklæddur er hann náði hópnum aftur heima á hlaði í Hólum. Höfðu Hólamenn í spurn, hvort svo væri komið að Þórður hefði ekki lengur stjórn á færleik sínum nema berfættur. Þótt í athugasemdinni fólgin sneið að Sigga Fil „sei-sei-já-já“, sem ók vatnatrukki sínum jafnan berfættur yfir Fljótin, til að hafa nákvæmari stjórn á akstrinum.


Churchill frá Árnanesi

Hann var fæddur nóttina 10. maí 1940 samdægurs innrás Breta í Ísland og af því gaf eigandi hans Valdi í Árnanesi honum nafnið Churchill. Hann var rauður á lit og fagur á skrokk, lipur í lund og léttur á fæti og að honum stóðu hinir bestu stofnar. Faðir hans var Blakkur 129 í Árnanesi og móðir hans var Dögg 850 í Árnanesi. Churchill var því fjórði ættliður frá Óðu-Rauðku í báðar ættir. Það voru miklar vonir við hann bundnar enda var hann seldur tvævetur upp í Borgarfjörð þar sem honum var ætlað mikið hlutverk í kynbótum. Þær komu þó aldrei til. Hann var ekki nema fyrir skömmu kominn að Hvanneyri og ekki farinn að fylja hryssur þegar hann hengdist í hálsól og varð þar endir á miklum draumi. Valdi tók þessu illa og hafði skömm á Hvanneyringum fyrir. Það er haft til marks hér um, að þegar Siggi sveitó, Sigurður Hjaltason fyrrverandi sveitarstjóri á Höfn m. m. var nýkominn heim frá búnaðarskólanámi á Hvanneyri að það var til tals í hópi Nesjamanna að gott væri nú að fá heim í sveitina vel menntaða búfræðinga, þeir byggju yfir góðri og mikilli þekkingu og yrðu þess vegna áreiðanlega til gagns. Þá er sagt að Valdi hafi hreytt inn í umræðuna: „Þeir kunna að minnsta kosti að hengja hesta.“ Seinna fór Gormur frá Árnanesi, sonur Churchills, upp í Borgarfjörð graður.


Nökkvi 260 frá Hólmi

Nökkvi var jarpstjörnóttur, fæddur 1941. Eigandi Nökkva var ung stúlka í Hólmi, Svava Halldórsdóttir. Að beiðni Bjarna kaupfélagsstjóra á Höfn keypti Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðunautur Nökkva tvævetran af Svövu fyrir geypiháa fjárupphæð sem aldrei hefur verið upplýst hve há var og tók það heila nótt að semja. Eftir þetta fór Nökkvi að heiman og kom aldrei heim aftur en fór vítt um land og skildi eftir sig einn mikilverðasta slóðann í íslenskri hrossarækt og vakti hvarvetna aðdáun eða öfund og hlaut lof eða last. Hann var til dæmis hafður í merastóðum í Skagafirði, án þess að undan honum kæmi þar nokkurt hross, jafnvel þó allar merar fyljuðust og ættu folöld ári síðar. Varla er sá hestur til á landinu í dag að hann eigi samt ekki Nökkva að forföður, nema þá hann sé rangt ættfærður. Nökkvakyn eru enn í ræktun víða og þykir ýmsum gott að byggja nútímarækun á þessum gamla margverðlaunaða stofni. Geiri í Gufunesi tamdi Nökkva og eftir það var hann sex ár á Hólum í Hjaltadal, 1944-1950, síðan varð hann graðhestur í Landeyjum, á Álfhólum þar sem út af honum var stnduð náin skyldleikarækt með góðum árangri, og síðan var hann á Hesti í Borgarfirði og víðar var hann og skyldi jafnan eftir sig gæðingakyn.


Hóla-Jarpur 474
Jarpur var kominn undir lýðveldisvorið 1944 að sögn Leifa og fæddur í Hólum vorið eftir. Móðir hans var Lárusar-Stjarna, aðkomuhryssa í Hornafirði ættuð undan Eyjafjöllum og keypt af mælingamönnum sem þurftu að losna við hana. Hóla-Jarpur var jarpstjörnóttur eins og faðir hans Nökkvi frá Hólmi og öfugt við föður sinn, sem ungur lagðist í víking og gat afkvæmi sín í fjarlægum héruðum fór Jarpur hvergi en skildi sín spor eftir mörg og merk á heimaslóðum. Þar var hann notaður í mörg ár og út af honum kom fjöldinn allur af afburða hrossum og máttarstólpum í hornfirskri hrossarækt. Að loknu sínu farsæla föðurhlutverki varð Hóla-Jarpur reiðhestur Guðmundar í Holtahólum.


Litli-Skítur frá Fornustekkum
Hæringur hét hann réttu nafni og var undan Gísla-Rauðku 848; Gísla forna, og átti Kolbak hinn fræga að föður. Hæringur var brúnt haustfolald frá 1946 og Gunnar Bjarnason hrossaræktarráðunautur keypti hann af Rikka og sendi hann norður á Hóla í Hjaltadal sem graðhestsefni vegna ættgöfgi. Það þoldu Skagfirðingar ekki og því var tekið á móti honum með hinni niðrandi nafngift og hann alla tíð lítið notaður, níddur og hæddur. Þó er til út af honum, í gegnum nána skyldleikaræktun, einhver merkilegasta ættlína íslenskra reiðhrossa á síðustu áratugum 20. aldar, þar sem er Ófeigur 882 frá Flugumýri í Skagafirði og niðjar hans; óteljandi margir afreks- og frægðarhestar nú komnir vítt um lönd. Litli-Skítur var langa-langa-langafi Ófeigs í báðar ættir og reyndist ekki svo lítill skítur það!


Garpur frá Árnanesi

Garpur var brúnn hestur fæddur 1947 undan Hóla-Jarpi og Sótu í Árnanesi, sem var ein af bestu ræktunarhryssunum í Árnanesi. Garpur var sannkallaður garpur og kom það vel í ljós þegar hann var kominn suður. Þangað fór hann snemma en lenti fyrst í vandamálum vegna óviðráðnleika og vildu menn þá ógjarnan eiga hann. Geiri í Gufunesi mun hafa átt Garp fyrstur manna fyrir sunnan en gefist upp á fantaskap hans og ófyrirleitni. Eigendaskiptin á Garpi enduðu þannig að Jói rósabóndi í Dalsgarði í Mosfellsdal keypti hann og upp úr því tók frægðarsól Garps að rísa. Frægur varð Garpur fyrir hlaupagetu sína, kappreiðahestur sem setti met eftir met og sigraði hvern kappann af öðrum. Mest hljóp hann undir Jónasi Ólafssyni sem frægur er fyrir áratuga langan kappreiðaknapaferil sinn. Það var ekki vandræðalaust að hleypa Garpi framan af. Hann tót upp á ýmsu og það mun ekki hafa verið fyrr en þeir Jónas og Jón á Reykjum í Mosfellsdal fundu upp á því að hleypa honum á bökkum djúps skurðar að hann lagði af útundansérhlaup og önnur uppátæki á hlaupum. Þegar Jónas hleypti honum eftir skurðbakkanum sprakk bakkinn undan klárnum og lentu þeir báðir í skurðinum við lítinn fögnuð en heilir þó á líkama og sál ataðir rauðaleir og drullu. Þetta reyndist Garpi sálubót er upp var staðið og hljóp hann sprettina vandræðalaust upp úr því við sívaxandi árangur.


Ásgríms-Brúnn frá Borgum

Hann var fæddur 1954 og hét tveim nöfnum, Sörli á meðan Skírnir átti hann en var jafnan kallaður Ásgríms-Brúnn eftir að hann var geltur og Ásgrímur kaupfélagsstjóri eignaðist hann. Ætt hans er traust Árnanesætt þar sem hann var undan Dúa-Rauð og Hrefnu 2319, sem bæði voru komin út af Óðu-Rauðku á ýmsa vegu í gegnum skyldleikarækt. En klárinn var ekki síður merkilegur fyrir afkomendur sína en forfeður og -mæður. Hann var faðir Krumma 540 í Borgum sem var mikill graðhestaforfaðir. Sonur Krumma var Hrafn 583 frá Árnanesi sem var faðir Roða 629, Gulltopps 630, Faxa 646, Feykis 900, Lubba, Austra og Árvakurs, allra frá Árnanesi, Bassa í Hólum, Mána í Ártúni og Þyts á Svínafelli auka annarra fola í fjarlægari sveitum svo sem Stíganda 728 frá Hesti, Náttfara 817 frá Ytri-Skeljabrekku og Eilífs frá Sveinatungu að ógleymdum höfuðskörunginum Ófeigi 818 frá Hvanneyri. Eru þá ótaldar allir þeir tugir úrvals ættmæðra sem undan Hrafni komu. Ekki liggur ljóst fyrir á þessari stundu hvort telja má Brún það til frægðar að hann hafi verið setinn af utanríkisráðherra vorum, sem ekki er þó með öllu óskemmtilegt rannsóknarefni.


Blesi þúsund á Jaðri
Blesi var rauðblesóttur fæddur Ingimari á Jaðri árið 1980, stór og sterkur og hlaut ættbókarnúmerið 1000 við kynbótadóm, númer sem margan hrossaræktandann í landinu munaði nú í þegar röðin fór að nálgast það. Blesi var stórstígur og röskur svo af bar og það svo ýmsum þótti nóg um. Hann var sagður þurfa mörg hundruð metra í aðhlaup að skeiðbrautum á sýningum og lá þá gjarnan jafnlangt út fyrir brautarendann hinu megin. Blesi var þeirrar gerðar að honum dugðu ekki smásirklar og honum hæfði engin ringulreið. Hann var hestur hins opna og villta víðernis og dæmigerður Hornfirðingur eins og þeim er kröftugast lýst. Hann hefði sómt sér mætavel á hvíta tjaldinu í káboj-mynd. Eitt er víst; jóreykurinn hefði sést mílur að og seint sest aftur.


Stoltur þúsund Blesi ber
sem bót með sínu stutta nafni.
Fært í blek á bók það er
í bestu landsins hesta safni.


Kommi á Höfn
Kommi er brúnn og fæddur 1993 og er náttúrlega undan Hamri og Sigð eins og nafnið felur í sér. Gunnsi rafvirki og heiðursgestur á hann og hefur á honum óskiljanlegt eftirlæti, þar sem hesturinn er ekki frægur fyrir neitt annað en eiganda sinn og hina ógleymanlegu sýningu á föður hans á fjórðungsmótinu á Fornustekkum árið 1995 og er ólíklegur talinn til þess að setja met og öðlast frægð, þó enn sé reyndar möguleiki á slíku. En ástin spyr ekki um rök og ástæður. Á umræddri sýningu reið Haraldur í Haga Hamri gröðum með standpínu um allar vallarbrautir með skvettum og prjóni, útundansérhlaupum og uppstökkum, hoppum og híum, hvæsi og hvíum, sem alls staðar mátti greina. Það heyrðist í áhorfendabrekkunni, á sýningarbrautinni, í meragerðunum út við Fornastekkarot, úr dómarabásunum og í hátalarakerfinu. Þá var Hamar stórkostlegur en féll ekki sem allra best að hefðbundinni sýningarhegðun


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband