Umfjöllun um Glym

15. apríl 2008

Viðtal við Agnar í aukablaði Fréttablaðsins

Stjörnur í  Staðarhúsum

Með´ann beinstífan þið bara sjáið það ekki Nú styttist óðum í kynbótasýningar. Spádómar fara á kreik. Agnar Þór Magnússon á Staðarhúsum í Borgarfirði er einn þeirra sem hafa komið fram með flotta stóðhesta undanfarin ár.
Glymur frá Innri-Skeljabrekku sló í gegn fjögurra vetra, fékk 8,38 í einkunn. Hann varð efstur í sínum flokki á FM2005 á Kaldármelum og stóð sig vel á Landsmóti árið á eftir. Hann fékk hins vegar ekki nema 6,5 fyrir fætur.
,,Ég geri alveg eins ráð fyrir því að ég fari með hann í úrtöku í A-flokki fyrir Landsmót," segir Agnar Þór. ,,Hann er sjö vetra í vor. Ég býst þó við að hann fari fyrst í kynbótadóm."
-Mörgum leikur eflaust forvitni á að vita hvernig fæturnir reynast?
,,Það er ekkert lát á þeim. Honum hefur aldrei orðið misdægurt í fótum, þrátt fyrir mikinn fótaburð. Það lítur út fyrir að einkunnin fyrir fótagerð túlki ekki styrkleika fótanna" (Hluti af viðtali er birtist í 1h hestar)

25.03.2008 @ 22:43 - 847.is Þórir Ó. Tryggvason
Flottar myndir
  Myndir frá Stjörnutölti í Skautahöllinni á Akureyri eru komnar inn á söluvef pedromynda, www.pedromyndir.is
Þar má sjá myndir af öllum hrossum mótsins. Glymur frá Innri-Skeljabrekku sem er á meðfylgjandi mynd var afar glæsilegur, einnig voru merarnar Örk og Frægð frá Auðsholtshjáleigu flottar.






Fjórir stoltir

Áhugavert folald

Þorvaldur Jónsson hrossaræktandi og bóndi á Innri-Skeljabrekku er ræktandi Glyms. Hann segir: ,,Það var þannig að fólkið í Norðtungu vantaði barnahest. Það lá svo vel við að ég átti einn slíkan og fékk ég móður Glyms upp í barnahestinn. Hún var ótamin en það varð feikna gott reiðhross úr henni með tamningu. Ég á annan fola undan henni og Meiði frá Miðsitju sem ég bind miklar vonir við. Glymur var fallegur sem folald og sýndi ávallt mikil tilþrif á gangi. Þau Finnur og Lena, núverandi eiguendur Glyms, voru að vinna í hesthúsi hjá mér hér á Innri-Skeljabrekku veturinn sem Glymur var á fyrsta vetur. Þau heilluðust af honum og keyptu hann um vorið. Gaukur, faðir Glyms, var með geysilega gott gang- og geðslag, rétt eins og glymur og önnur trippi sem ég þekki til undan Gauki. Gaukur virðist því ætla að erfa þessa eiginleika sterkt frá sér, hrein skil á gangtegundum og tandurhreint tölt, brokk og skeið auk skemmtilegs vilja og meðfærilegs geðslags," segir Þorvaldur Jónsson, hrossaræktandi á Innri-Skeljabrekku.

Viljugur og lærdómsríkur 

Agnar Þór Magnússson er maðurinn sem tamdi og hefur sýnt Glym. ,,Í janúar 2005 sótti ég Glym til tamningar. Mér líkaði einstaklega vel við hann strax. Hann er svo geðugur og viljugur að læra. Hann er mjög auðveldur og meðfærilegur á húsi en er samt ekki fyrir að láta kjassa sig of mikið. Um leið og hann er komin út úr stíunni er hann strax með manni og móttækilegur. Hann var auðveldur í tamningu og alltaf tilbúin að læra eitthvað nýtt, samstarfsviljinn var alltaf til staðar. Viljinn var þægilegur í byrjun en jókst svo jafnt og þétt. Ég hélt framan af að hann væri klárhestur því hann var klárgengur í byrjun, en svo þegar hann fékk jafnvægi á tölt kom ofsa rými og stórt skref. Ég ákvað því að prufa skeið þegar líða tók á veturinn og hann tók heldur betur vel í það, öruggt og ferðmikið. Ég prufaði skeiðið ekkert meira fyrr en í dómnum á Sörlastöðum en æfði niðurtökuna dálítið."

Hreinn og rúmur gangur 

,,Ég held að það verði langt þangað til maður kemst á bak fjögurra vetra trippi eins og Glymi aftur. Allar gangtegundir eru svo tandurhreinar og flugrúmar og hesturinn svo einstaklega þjáll og léttur.

(Hluti af texta um Glym sem birtist í tölublaði Hestar 2006) 

28.05.2005
Héraðsýning á Sörlastöðum-stóðhestar

Glymur á sörlastöðum

Yfirlistsýningu kynbótahrossa á héraðssýningu á Sörlastöðum lauk að áliðnum degi í gær. Að venju kom fjöldi álitlegra kynbótagripa fram á sýningunni og margir fengu háa dóma ………..
Í fjögurru vetra flokki stóð efstur Glymur frá Innri-Skeljabrekku með 8,55 fyrir hæfileika en var  því miður ekki upp á sitt besta á yfirlitsýningunni í gær vegna ágrips. Það verður mjög spennandi að sjá meira til þessa móvindótta fola. Skrúður frá Litlalandi skaust upp í annað sætið eftir að hafa hækkað sig á yfirlitsýningunni í gær. Hann er efnilegur foli, jarpskjóttur, undan Randveri frá Nýja-Bæ. 

(hluti af frétt er birtist á hestar.net)

 

 mbl.is | 11.07.05 | 08:09
Glymur á eftir að gera garðinn frægan
Glymur frá Innri-Skeljabrekku var sá hestur sem hvað mesta athygli vakti á nýafstöðu Fjórðungsmóti Vesturlands á Kaldármelum. Þessi fjögurra vetra, móvindótti stóðhestur fékk eina þá hæstu hæfileikaeinkunn sem svo ungur hestur hefur hlotið. Ræktendurnir, þau Dagný Sigurðardóttir og Þorvaldur Jónsson í Innri-Skeljabrekku í Andakíl, segjast samt ekki sjá eftir að hafa selt hann. Þau eru sannfærð um að Glymur eigi eftir að gera garðinn frægan í orðsins fyllstu merkingu, en gott gengi hans í kynbótasýningum vorsins og vel heppnuð ræktunarbússýning frá Innri-Skeljabrekku á mótinu eru vissulega ákveðin tímamót hjá þeim. Þó hafa vissulega fleiri hross úr þeirra ræktun gert það mjög gott á undanförnum árum, svo sem heimsmeistarinn í fjórgangi, Kjarkur frá Horni, sem nú er í Sviss, stóðhesturinn Þröstur frá Innri-Skeljabrekku sem er í Bandaríkjunum og gæðingurinn Tindur frá Innri-Skeljabrekku svo einhver séu nefnd. Hrossin sem þau Þorvaldur og Dagný hafa ræktað eru bæði kennd við Horn í Skorradal og Innri-Skeljabrekku og er að finna víða um heim.

"Ég keypti móður Glyms, Þyrlu, fjögurra vetra gamla frá Norðtungu í algjöru bríaríi," sagði Þorvaldur. "Mér fannst þetta bara fallegt hross. Við eigum tvo aðra hesta undan henni, sex og þriggja vetra. Búið er að temja þennan sex vetra, en hann kom ekki eins fljótt til og Glymur."

Eins og gengur og gerist vill hrossunum fjölga hratt hjá þeim sem hafa áhuga á hrossarækt. Dagný segir að þau hafi verið komin með of mörg hross og því hafi þurft að selja úr hópnum. Glymur var seldur sem tryppi og einnig er búið að selja Þyrlu móður hans. Þá var Gaukur, faðir Glyms, seldur til Svíþjóðar, en frá honum fékk Glymur þennan sérstaka og eftirsótta lit, mótvindóttan. Sumir höfðu einmitt á orði á fjórðungsmótinu að loksins væri kominn fram virkilega góður móvindóttur stóðhestur til að nota í ræktunina.

"Við fengum engar hryssur undan Gauki en til dæmis eru til tveir tveggja vetra móvindóttir hestar undan honum. Nú í vor fengum við tvær hryssur undan Glym og er önnur þeirra móvindótt. Okkur líst vel á þær."

Þau Þorvaldur og Dagný segjast aðallega nota þrjár hryssur í ræktunina núna. Þær eru Skella frá Horni, en undan henni er til dæmis Skessa undan Markúsi frá Langholtsparti sem Þorvaldur reið í ræktunarbússýningunni og vakti mikla athygli. Þorvaldur segir Skessu vera mikið uppáhaldshross. Hinar tvær aðalræktunarhryssurnar eru Hrafnhetta frá Hvítárholti og Blika frá Innri-Skeljabrekku.

En það er langt í frá að það sé bara liturinn sem þau eru að sækjast eftir að rækta. Þau segja Gauk hafa verið mjög auðtaminn hest og að hann hafi verið fljótur til. Það virðist svo sannarlega hafa skilað sér til Glyms enda óvenjulega háar tölur sem hann fékk fyrir hæfileika. Meðal annars fékk hann 9 fyrir tölt, 8,5 fyrir brokk og skeið og 9 fyrir vilja og geðslag. Samtals fékk hann 8,67 fyrir hæfileika og sýna einkunnirnar hversu fjölhæfur hesturinn er og hversu mikla getu hann hefur eftir nokkurra mánaða tamningu. Þyrla, móðir Glyms, er mjög rúm á gangi og þessi blanda hefur því heppnast vel.

"Í ræktuninni höfum við fyrst og fremst sóst eftir rúmum og hreingengum hrossum," segja þau Þorvaldur og Dagný. "Við tókum í fyrsta sinn þátt í ræktunarbússýningu núna og það var skemmtilegt að upplifa það að sjá úrval úr ræktuninni svona á einum stað. Ég held að við getum verið ánægð með sýninguna enda höfum við fengið mjög jákvæð viðbrögð frá áhorfendum.

Annars var þetta mót einstaklega skemmtilegt. Maður sér miklar framfarir sem meðal annars koma fram í því að helmingi fleiri kynbótahross náðu lágmarkseinkunn inn á þetta mót en á síðasta fjórðungsmót hér. Svo var stemningin mjög skemmtileg og notalegri en á stærri mótum."


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband