Glymur frá Innri-Skeljabrekku
Góðar gangtegundir, mikill vilji
Glymur vakti gífulega athygli þegar hann kom fyrst fram fjögra vetra gamall á Sörlastöðum í Hafnarfirði 2005. Glymur hlaut þá frábærar einkunnir fyrir hæfileika, þar á meðal 8,5 fyrir fegurð í reið, tölt, brokk og skeið, og 9,0 fyrir vilja og geðslag. Fyrir byggingu fékk Glymur 7,81. Í aðaleinkunn fékk hann 8,26. Á fjórðungsmóti Vesturlands hækkaði Glymur í einkunn fyrir tölt úr 8,5 í 9,0. Sú hækkun kom honum í 8,33 í aðaleinkunn og 8,67 fyrir hæfileika. Í dómalýsingunni er töltið sagt rúmt, öruggt og skrefmikið. Skeiðinu er lýst sem ferðmiklu og viljinn ásækinn og þjáll. Glymur er með beina neflínu, reistur með háar herðar. Bakið er breitt og lendin afturdregin en flöt. Glymur er útskeifur að framan en hófar efnisgóðir og hælar þykkir. Glymur hefur þroskast mikið síðan þessi umsögn var gerð en hann hækkaði í byggingareinkunn úr 7,81 í 7,98 á þessu ári.
Kominn af Sauðárkrókshestum
Glymur er undan Gauki frá Innri-Skeljabrekku sem einnig var móvindóttur. Gaukur, sem var seldur til Svíþjóðar í fyrra náði fyrstu verðlaunum 8,01 á kynbótasýningu í Borgarnesi árið 2003. Hann er jafn fyrir byggingu og hæfileika, með 8,01 og 8,02. Gaukur fékk 8,0 fyrir tölt og brokk og 8,5 fyrir vilja. Af byggingareinkunnum ber hæst 9,0 fyrir hófa og prúðleika. Gaukur var undan Greip frá Miðsitju sem undan Kormáki frá Flugumýri og Hervarsdótturinni Gangskör frá Miðsitju. Móðir Gauks er Hrafnhetta frá Hvítárholti en afi hennar var einnig Hervar frá Sauðárkróki. Móðir Glyms er Þyrla frá Norðtungu en í móðurætt Glyms frá Innri-Skeljabrekku er lítið um sýnd hross. Gustur frá Sauðárkróki kemur þó þrisvar fyrir, sem afi og langafi í móðurætt og einnig krælir á honum í föðurættinni. (1.tbl 2006 HESTAR, tímarit um íslenska hestinn)